Óöld í borginni-of seint að kenna ábyrgðartilfinningu?

Óöld í borginni - of seint að kenna ábyrgðartilfinningu?

Undanfarið hefur verið mikil umræða í fjölmiðlum um það af hverju fólkið sem er í miðbænum um helgar hegði sér eins og það gerir. Talað er um fólk sem ræðst hvert á annað og meiðir, fólk sem væflast um undir áhrifum og ógnar öðrum vegfarendum og gengur um án nokkurrar virðingar, fólk gengur jafn vel örna sinna í húsasundum og í görðum.
Komið hafa fram ýmsar skýringar á þessari hegðun og ýmsar hugmyndir eru uppi til úrbóta. Svona skemmtanalíf er ekki það sem við borgarbúar erum stolt af, við viljum geta gengið óáreitt um göturnar og notið þess sem borgin hefur upp á að bjóða án þess að eiga á hættu að á okkur verði ráðist eða þurfa að klofa yfir sóðaskapinn í stígvélum.

Það er greinilegt að það er mikill vandi til staðar og viðbrögðin við honum hafa ekki dugað hingað til. það eru margir sem ekki hafa lært að taka ábyrgð á hegðun sinni og eiga eftir að öðlast færni í því að umgangst aðra og umhverfi sitt af virðingu og þeir verða að læra það.
Samfélagið þarf að hjálpa þessu fólki að öðlast færni til að lifa í samfélagi við aðra og kenna því að taka ábyrgð á gjörðum sínum og sjálfum sér. Það eru til viðurlög við svona hátterni eins og að framan er líst, en viðurlögin þurfa að koma að gagni, ekki læra menn þessa hluti í fangelsum landsins eða hvað?
Þroskuð ábyrgðartilfinning er undirstaða heilbrigðrar sjálfsmyndar. Ábyrgðartilfinning felur meðal annars í sér að taka tillit til annarra og umgangast umhverfi sitt af virðingu, verja þá sem eru minni máttar og hjálpa öðrum. Fyrir flesta er þetta hið auðveldasta mál en það virðist sem aðrir þurfi meiri tíma, meiri kennslu, meiri leiðbeiningu og jafnvel beina þjálfun í því að tileinka sér ábyrgðartilfinningu.
Þeir einstaklingar sem ekki geta sett sig í spor annarra, virða takmörk og fara eftir lögum og reglum, hefðu þurft meiri tíma og hjálp til að læra þessa hluti. Það er staðreynd að börn og unglingar eiga mis auðvelt með að þróa þessa hæfni með sér og því þarf að gefa þeim færi á hjálp og leiðbeiningu og þann tíma sem þau þurfa. Ef þessi börn fá ekki hjálp verða þau sífellt til vandræða fyrir samfélagið þegar þau eldast.
Það er nauðsynlegt að vinna fyrirbyggjandi og kenna og þjálfa eins og allt annað sem börnum er kennt frá upphafi. Foreldrar og aðrir uppalendur eru eflaust mjög meðvitaðir um nauðsyn þessa, en við þurfum að leggja enn þá ríkari áherslu á þennan þátt í því nútíma-hraða-samkeppnis-samfélagi sem við lifum í. Ábyrgð leik-og grunnskóla er mikil og öll umræða um mikilvægi þessa er algjör forsenda þess að börnin okkar læri að umgangast aðra, taka tillit og bera virðingu.

Það þarf að auka almenna umræðu um mikilvægi ábyrgðartilfinningar og það mun skila sér eins og hver annar áróður sem vandað er til. Það eru viðurlög við því að beita ofbeldi og skemma eigur annarra en peningasektir eða fangelsisvist kemur ekki endilega í veg fyrir að einstaklingurinn endurtaki brot sín, það sýnir reynslan okkur. Viðurlögin við brotunum eru nefnilega ekki endilega þau sem virka til að breyta atferli einstaklingsins og breyta lífsháttum hans. Með ákveðnum leiðum er hægt að hjálpa fólki að breyta. Samkennd og virðing er ekki meðfædd og hana þarf að læra og það er aldrei er of seint að að læra nýja færni.
Uppeldi til ábyrgðar felur í sér alla þætti aukinnar ábyrgðartilfinningar og þess vegna er svo mikilvægt að taka rétt á því þegar börn og unglingar gera eitthvað af sér. Þegar það gerist skapast aðstæður sem eru mjög mikilvægar og þær bjóða upp á mikla möguleika til að breyta. Þess vegna er svo mikilvægt að rétt sé brugðist við svo tækifæri þessara einstaklinga, til betra lífs, glatist ekki. Árangursrík umræða eftir að barn eða unglingur hefur gert eitthvað óábyrgt af sér er áhrifamikil leið til að kenna þeim að finna fyrir ábyrgðartilfinningu. Einstaklingurinn þarf að standa frammi fyrir broti sínu og viðurkenna brotið, hann þarf að biðja brotaþolann afsökunar og fá svo tækifæri og hjálp hjá sérfræðingi til að standa við loforð sitt um bætta hegðun. Það sem heldur honum við efnið eru önnur viðurlög.
Þannig fær einstaklingurinn tækifæri til að breyta og tækifæri til að þróa með sér ábyrgðartilfinningu. Taka þarf á þessum hlutum á uppbyggjandi hátt svo að líkurnar á því að brotin endurtaki sig minnki eða hverfi.

Höfundur er félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur og rekur LAUSN, fjölskyldumeðferð og ráðgjöf.

Posted on Dec 11, 2007 - 06:32 PM by Hannes