Lausnamiðuð nálgun

Lausnamiðuð nálgun - að koma auga á það sem er að virka !

Þegar við erum í vanda eða erum ekki að ná árangri, þá spyrjum við okkur sjálf gjarnan “af hverju”- spurninga. Við viljum finna ástæðuna fyrir vandanum. Þetta getur verið mjög tímafrekt, krefjandi og erfitt og ekki alltaf til árangurs. Orsök þess að okkur líður ekki vel eða okkur er ekki að takast, á sér ekki alltaf eina einfalda skýringu.
Þegar við viljum breyta einhverju í lífi okkar, hvort sem það er persónulega eða í sambandi við vinnu, þá vitum við líka hvernig við viljum ekki hafa hlutina. Ef við hins vegar gefum okkur tíma til að hugsa hvernig við viljum hafa hlutina, þá erum við að hugsa fram á við og komum auga þau markmið sem eru eftirsóknarverð.
Fólk í vanda leitar gjarnan fyrst eftir ráðum hjá fjölskyldu og vinum, en margir leita sér aðstoðar hjá sérfræðingum. Það getur verið stórt skref að taka en getur gert gæfumuninn og því fyrr því betra.
Þegar fólk er líkamlega veikt eða slasað eru flestir sammála því að nauðsynlegt sé að leita til sérfræðings. Í þeim tilvikum þegar um sjáanleg meiðsl eða ákveðna líkamlega sjúkdóma er að ræða þá eru orsakirnar greindar og vísindalegar niðurstöður eru fyrir því hvaða lausn er æskilegust. Þetta liggur ekki eins ljóst fyrir þegar fólki líður illa eða er ósátt.

Á vinnustöðum og í starfsmannahópum eyðum við líka miklum tíma í að skoða af hverju við erum ekki að ná tilætluðum árangri. Ef við hins vegar tökum strax stefnuna á framtíðina og skoðum hvert við viljum fara, þ.e.a.s. breytum vandanum í markmið, þá spörum við tíma og getum farið að einbeita okkur að því að skilgreina leiðir að markinu.

Lausnamiðuð fjölskyldumeðferð er hugmyndafræði sem hefur rutt sér til rúms um allan heim og hefur verið að þróast í um 30 ár. Helstu áherslur eru þær að fólki er hjálpað við að koma auga á lausnir sem virka. Litið er svo á að einstaklingurinn sé sérfræðingur í eigin lífi og að enginn viti betur en hann sjálfur hvað hann vill og hvað kemur honum að bestum notum, meðferðaraðilinn er hins vegar eins og þjálfari.
Fortíðinni getum við ekki breytt,en vandinn er viðurkenndur eins og hann birtist fólki og vandanum síðan breytt í markmið. Í lausnamiðaðari hugmyndafræði skiptir fortíðin ekki máli að öðru leiti en því, að koma auga á og draga fram góða og jákvæða upplifun og reynslu.

Margir setja sér markmið þegar þeir vilja breyta einhverju í lífi sínu eða ætla sér að ná meiri árangri. Þá er mikilvægt að markmiðin séu skýr, raunhæf og eftirsóknarverð og betra að þau séu mælanleg.
Líklega vilja flestir setja sér eigin markmið enda hlýtur árangurinn að vera í samræmi við það. Með lausnamiðaðri meðferðartækni er reynt að tryggja að fólk, einstaklingar, fjölskyldur eða hópar, eftir því hvað við á, séu örugglega að vinna í eigin markmiðum. Litið er svo á að lausnin sé fólgin í undantekningunni frá vandanum, þ.e.a.s. þegar vandinn er ekki til staðar eða minna er af honum. Þess vegna er áherslan lögð á það sem nú þegar gengur vel og fólk hvatt til að gera meira af því.
Hvatning og hrós eru lykilorð í öllu uppeldi og virkar mun betur en skammir og aðfinnslur og á við í öllum samskiptum. Og ef við einblínum á vandann og hindranirnar þá komum við ekki auga á styrkleikana og missum af tækifærum til að hrósa.
Árangur er reglulega metinn á skala frá 0-10. Einfaldur skali sem notaður er til að mæla hvaða árangri er nú þegar náð Slíkt mælitæki er notað á ýmsan hátt, t.d. til að meta tilfinningar, líðan, trú á árangur, framfarir og fleira. Þannig verður vinnan markviss og áþreyfanleg.

Lausnamiðuð nálgun og lausnamiðuð fjölskyldumeðferð “Solution Focused Brief Therapy” hefur áunnið sér fastan sess víða um heim. Upphafsmenn hennar voru hjónin Insoo Kim Berg og Steve de Shazer (d.11.sept. 2005) frá Milwaukee í Bandaríkjunum. Þau hafa skrifað og gefið út ógrynni bóka og greina um hugmyndafræðina sem margir fremstu meðferðar- aðilar heims hafa tileinkað sér og þróað áfram.
Insoo Kim Berg er væntanleg hingað í október en þá verður haldin hér alþjóðleg fjölskyldumeðferðarráðstefna á vegum IFTA International Family Therapy Association og FFF, Félags fagfólks í fjölskyldumeðferð.

Höfundur er félagsráðgjafi/ fjölskyldufræðingur og formaður FFF, og
rekur LAUSN, fjölskyldumeðferð og ráðgjöf í Þarabakka 3, 3. hæð.

Posted on Dec 11, 2007 - 06:30 PM by Hannes