Fyrirlestur á Menningarnótt, EHÍ

Örfyrirlestur á Menningarnótt þann 18.ágúst 2007 í Endurmenntun Háskóla Íslands

Góðan daginn gott fólk og til hamingju með daginn!

Ég er þakklát fyrir að fá að vera hér með ykkur og þessum frábæru karlmönnum sem halda fyrirlestur hér í dag. Ég get reyndar ekki stært mig af því að hafa skrifað bók, enn þá, en hef reyndar þýtt eina sem kom út í ágúst í fyrra og heitir Börn eru klár!

Ég ætla að nota tímann núna til að tala um samskipti og það hvernig við sjálf getum gert þau árangursrík og ánægjuleg.

Kannast einhver hér inni við að lenda stundum í samskiptum við þá sem þeim þykir vænt um, sem skila ekki miklu? Td. sem foreldri í samskiptum við börnin eða í samskiptum við maka eða nána vini?

Ég held að það hljóti að vera fleiri en ég sem hafa staðið sjálfan sig að því að vera að tala um sama hlutinn aftur og aftur, tuða og ekkert breytist. Jú það sem gerist er að ég verð pirruð, hækka jafnvel röddina og þusa ennþá meira um sama hlutinn . Ég heyri í sjálfri mér og hugsa, þetta er ekki það sem ég vil, þetta eru ekki þau samskipti sem ég vil hafa við barnið mitt eða maka minn.

Sá sem ég var að tuða í er líka orðinn pirraður og jafnvel farinn eða alla vega löngu hættur að heyra hvað ég var að segja. Mér þykir allt of vænt um þessa einstaklinga til að vera í svona samskiptum við þá. Svona samskipti gera mig líka orkulausa og vansæla.

Ég finn að ég þarf að gera eitthvað annað sem virkar betur.

Það hefur verið sagt um hjónabandið að það sé fullt af spennu og pirringi.
Fyrsta árið talar aðallega maðurinn og konan hlustar.
Annað árið talar aðallega konan og maðurinn hlustar
Þriðja árið þá tala þau bæði og nágrannarnir hlusta.

Ekki þori ég að fullyrða að þetta sé svona, en í nánum samskiptum þurfum við oft að leysa ágreining og finna lausnir og það reynist ekki öllum jafn auðvelt, enda sjáum við það á tölfræðilegum niðurstöðum að skilnaðartíðnin er orðin mjög há.
Það eru margir sem ekki finna lausnina þrátt fyrir miklar umræður um vandann.

Eru kanski einhverjir hér inni sem kannast við eitthvað af þessu þegar þið eruð að æsa ykkur og viljið að eitthvað breytist hjá hinum sem þið eruð í samskiptum við: 
Hvers vegna gerir þú aldrei......
Af hverju þarf ég alltaf ...
Þú ert alltaf svo…
það er alltaf sama…
það gerst aldrei neitt....
Og svo endar kanski umræðan með samskonar rifrildi og síðast þegar við ræddum þetta sama?

Er ekkert gott í gangi, hefur eitthvað farið fram hjá okkur? Höfum við hugsanlega gleymt að minnast á allt það sem okkur líkaði við í fari þessa fólks? Þetta með alltaf og aldrei er ekki mjög uppbyggjandi í samskiptum við fólkið okkar eða hvað?

Oft gerir fólk samkomulag um að breyta, það þráir jákvæðari og meira uppbyggjandi samskipti sín á milli.

Oft reynist vel að setjast niður í góðu tómi og leggja drög að breytingum en þá fer oft umræðan, því miður út í að ræða eingöngu það sem ekki er að ganga vel, sem sagt “vandamálatal”. Svo er gjarnan farið að leita að orsökinni fyrir vandanum, eða hverju sé um að kenna, eins og það breyti því sem liðið er og jafnvel finnst sökudólgur, eins og það breyti öllu. 

Það að hafa skýringu á vandanum leysir ekki endilega vandann eða hvað?

Jú, jú allir reyna að vanda sig fyrstu dagana eftir umræðuna, það er að segja, ef niðurstaðan hefur verið sú að allir ætli að láta þetta ganga. Eftir umræðu um vandann erum við meðvitaðri um það hvernig okkur líður og hversu stór vandinn er.
Við vitum nákvæmlega hvernig vandinn byrtist, ræddum hlutina ofan í grunninn eins og sagt er, en uppgötvum svo, okkur til skelfingar nokkrum vikum seinna, að við erum að takast á um sömu hluti, einu sinni enn.

Það sem við vorum nefnilega að gera var að “fokusera” eingöngu á það sem ekki var að ganga, því fylgja ýmsar ásakanir og svo var orsökin kanski ekki sú sem við héldum.

Það er ekki einfalt að finna út af hverju við hegðum okkur eins og við gerum, ýmsar lærðar kenningar eru til um það. Sumir segja að þetta sé allt í genunum, aðrir segja þetta vera vegna uppeldisins og enn aðrir halda því fram að svona höfum við verið skilyrt og það þurfi að skilyrða okkur upp á nýtt ef við eigum að breytast. Hver svo sem orsökin er breytir það ekki því, að það liðna er liðið. Við höfum alltaf tækifæri til að ráða hvernig við högum okkur í dag og í framtíðinni.

Það er nefnilega því miður ekki alltaf nægjanlegt að hafa góða skýringu á því hvers vegna samskipti ganga illa. Það er okkur samt ansi tamt að bregðast þannig við erfiðleikum í samskiptum, að byrja á að kryfja og skilgreina það sem miður fer og reyna svo að finna orsökina fyrir vandræðunum.

Enginn veit nákvæm af hverju við hegðum okkur eins og við gerum því hegðun er ekki einangrað fyrirbæri. En við sjálf erum samt sérfræðingar í eigin lífi og vitum hvað við viljumog hvað við viljum að breytist og við höfum möguleika á að breyta hegðun okkar sjálfra. Mikilvægt er því að hætta að reyna að breyta öðrum og reyna ekki að halda því fram að við vitum hvað er best fyrir aðra.

Ég fullyrði að það að kryfja vandann og leita að orsökinni fyrir honum er ekki nauðsynlegt til að leysa hann.
En það er hins vegar satt að það eru þúsundir sérfræðinga um allan heim sem hafa viðurværi sitt af því að kryfja vandamál með fólki og segja því hvernig best er fyrir það að leysa þau. Það eru sérfræðingar um allt sem eru tilbúnir að segja okkur hvað sé best fyrir okkur og þeir trúa því (eða telja okkur trú um) að þeir viti það betur en við sjálf. Það er líka fullt af fólki allt í kring um okkur sem eru tilbúið til að segja okkur hvernig best sé fyrir okkur að lifa lífinu. Veit þetta fólk betur en ég hvað hentar mér og hvað ég vil? Ég held að lausnirnar á vandamálum séu oftar innan seilingar en okkur grunar, við höfum bara ekki komið auga á þær!

Breytingar eiga sér ekki stað einungis með því að vera meðvituð um tilfinningar okkar.

Td. þegar okkur líður illa þá erum við mjög meðvituð um það hvernig okkur líður og mjög meðvituð um hversu ósátt við erum við þá stöðu sem við erum í, en það eitt og sér leysir ekki vandann!

Áður en ég fór að vinna eftir lausnamiðaðri hugmyndafræði og tileinka mér lausnamiðaða nálgun í samskiptum við aðra þá eyddi ég mjög miklum tíma í að kryfja þ.e.a.s. að “analysera” vandamál og koma með tilgátur eða ”hypotesur” um orsök vandamála.
Ég var iðin við að kryfja mín eigin persónulegu vandamál og einnig að kryfja með mínum skjólstæðingum, þeirra vandamál.

En ég hef komist að því eftir að ég fór að læra að temja mér nýja hugsun og tala “lausnatal” að mér hefur sjálfri gengið betur að ná eigin markmiðum og ég sé líka að skjólstæðingar mínir ná betri líðan fyrr í meðferðarferlinu.

Þessi nálgun er mun árangursríkari, skjótvirkari og tekur styttri tíma, en sú að kryfja vandann.
Það er staðreynd að fortíðinni getum við ekki breytt en framtíðin er okkar!
Auðvitað er mikilvægt að við nýtum okkur allt það sem hefur gert okkur gott og styrkt okkur sem manneskjurur, en reynum ekki að breyta því sem við getum ekki breytt. Við lifðum það af!

Jákvæð hugsun er hæfileikinn til að sjá hluti á þann hátt að þeir komi að gagni.

En hvað er það sem maður gerir öðruvísi ef maður er lausnamiðaður ?

Við myndum fyrir það fyrsta ekki eyða tíma í að reyna að finna orsökina fyrir því að hlutirnir eru ekki að virka!

Þá myndum við hugsa um það hvernig það væri ef við værum ánægð og sátt og skoða hvað við værum þá að gera.

Við gætum tildæmis reynt að spyrja hvort annað um hvernig samskiptin væru ef það gerðist kraftaverk og vandinn væri horfinn! Hvað værum við þá að gera öðruvísi?

Þá værum við að breyta hugsuninni um vandann, þ.e.a.s. að taka “fókusinn” af því neikvæða og stilla hann á það jákvæða td. það sem við viljum að komi í stað þess sem er ekki að virka.

Umræðan snérist þá um það hvernig hlutirnir væru, ef þeir væru að ganga vel (óskir og vonir) og þannig gætum við breytt vandamálinu í markmið til að vinna að.

Markmiðið yrðum við að vera sammála um að væri mikilvægt og raunhæft. Það er nefnilega svo merkilegt að þegar farið er að skoða hvernig samskipti við viljum eiga, þá eru flestir sammála. Merkilegt, ekki satt?

Annað skrefið væri að skilgreina í smáatriðum hvað við þyrftum að gera til að komast þangað sem við vildum fara.

Skoða síðan hvað við erum nú þegar að gera sem við erum ánægð með. Það er í raun ákveðin skref, sem við höfum nú þegar að tekið í átt að markmiðinu. Skoða svo hvernig hægt eri að gera meira af því sem við erum sátt við og er að virka.

Við myndum td. ræða um kostina sem myndu fylgja því að ná markmiðinu og auka þannig áhugnn, viljan og trúna á árangri.

Þá gæfist okkur jafnframt kostur á að hrósa hvort öðru í stað þess að ásaka eða fara í vörn, sem ýtir undir betri samvinnu.

Við nefnilega missum oft af tækifærum til að hrósa ef við erum alltaf að tala vandamálatal!

Við getum farið strax að vinna í markmiðinu þegar það er orðið skýrt og skilgreina skrefin sem við þurfum að taka.

Svo er eitt mjög mikilvægt, að halda ekki að aðrir viti hvað við erum að hugsa.
Þeir geta ekki vitað hvers við þörfnumst nema við segjum það upphátt.
Þeir geta ekki vitað ekki hvað það er sem okkur þykir vænt um nema við að segjum það upphátt.
Við verðum að spyrja, ef við viljum vita hvað aðrir eru að hugsa af því við getum ekki lesið hugsanir og viljum ekki geta upp á.
Hver og einn verður sjálfur að geta útskýrt hverju hann vill breyta og hvað honum finnst vera að virka og hvert hann vill fara.

Rauður þráður í lausnamiðaðri nálgun er virðingin gagnvart einstaklingnum og hans þörfum.

Lausnamiðuð nálgun til bættrar samskipta gefur góðan árangur og þið getið fengið tækifæri til að kynnast einfaldri og árangurs mikilli leið til þess á námskeiðinu Samskipti til árangurs.

Takk kærlega fyrir

Posted on Dec 11, 2007 - 06:27 PM by Hannes